Framkvæmd áreiðanleikakannana

Áreiðanleikakönnun felur í sér það ferli að safna viðeigandi upplýsingum um fyrirhugaðan viðskiptavin og þær upplýsingar metnar með tilliti til hugsanlegrar áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sýni áhættumat tilkynningarskylds aðila fram á litla áhættu er hefðbundin áreiðanleikakönnun almennt fullnægjandi. Sé hins vegar mikil áhætta leidd í ljós kann að vera nauðsynlegt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun sem felur í sér umfangsmeiri upplýsingaöflun.


Hvaða upplýsingar eru þetta sem á að safna?


  1. Viðurkennd persónuskilríki einstaklinga, og ef um fyrirtæki er að ræða, þarf að afla viðurkenndra persónuskilríkja þeirra sem koma fram fyrir hönd fyrirtækisins, sem og raunverulegra eigenda
  2. Ef um lögaðila er að ræða, þarf að afla opinberra upplýsinga um lögaðilann sjálfan, svo sem með hlutafélagaskrá.
  3. Ef um þriðja aðila er að ræða sem kemur fram fyrir hönd viðskiptamanns, þarf viðkomandi umboðsmaður að framvísa viðurkenndum persónuskilríkjum
  4. Eftir atvikum kann að vera nauðsynlegt að afla upplýsinga um tilgang fyrirhugaðra viðskipta
  5. Þá kann jafnframt, eftir atvikum, að vera nauðsynlegt að afla upplýsinga um uppruna þeirra fjármuna sem nota skal í fyrirhuguðum viðskiptum


Töluliðir 1-3 eiga ávallt við þegar tilkynningarskyldur aðili framkvæmir hefðbundna áreiðanleikakönnun og áhættumat gefur ekki til kynna mikla áhættu. Séu greindir áhættuþættir hjá viðskiptamanni hins vegar þess eðlis að þeir leiða af sér mikla áhættu ber að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun, og á slík skylda einnig við í ákveðnum lögbundnum tilvikum, en þau helstu sem eiga við eru:


  1. Þegar viðskiptamaður er búsettur eða með staðfestu í áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki
  2. Þegar viðskiptamaður telst vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
  3. Þegar áhættumat gefur til kynna mikla áhættu


Þegar aukin áreiðanleikakönnun er framkvæmd er safnað öllum sömu upplýsingum og þegar hefðbundin áreiðanleikakönnun er framkvæmd, en til viðbótar er einna helst aflað upplýsinga um tilgang viðskipta og uppruna fjármagns, og annarra upplýsinga sem kunna að eiga við með tilliti til aðstæðna.


Þá er jafnframt rétt að taka það fram að tilkynningarskyldir aðilar verða jafnframt að ganga úr skugga um að viðskiptamenn tilheyri ekki válistum vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða, en viðskipti við slíka aðila eru með öllu óheimil.


Hvenær er áreiðanleikakönnun framkvæmd?


Framkvæma ber áreiðanleikakönnun við þær aðstæður sem kveðið er á um í 8. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en það er meðal annars:


  • Við upphaf viðvarandi samningssambands.
  • Þegar um er að ræða einstök viðskipti að fjárhæð 15.000 evrur.
  • Þegar um er að ræða millifærslu fjármuna að fjárhæð 1.000 evrur eða meira.
  • Við viðskipti með vörur eða þjónustu að fjárhæð 10.000 evrur eða meira
  • Þegar grunur er um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana.
  • Þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda eru nægilega áreiðanlegar


Það er að mörgu að huga við framkvæmd áreiðanleikakannana á viðskiptamönnum. Regluverkið veitir ákveðna leiðsögn um lágmarkskröfur í þessum efnum en þó er brýnt að vera á verði fyrir þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru á hverjum tíma og haga upplýsingaöflun samkvæmt þeim. Vísireglan er án efa sú að því minni áhætta sem fyrir hendi er, því minni kröfur eru gerðar, og svo öfugt.


Framkvæmd áreiðanleikakannana er hjá flestum smærri tilkynningarskyldum aðilum handvirkt og tímafrekt ferli, sem meðal annars felst í því að fylla út eyðublöð, kalla eftir skilríkjum, og fleiri upplýsingum frá viðkomandi viðskiptamanni.


Hefurðu áhuga á því að fræðast meira og ef til vill einfalda þínar áreiðanleikakannanir? Ef svo er, þá erum við hér til staðar fyrir þig.